top of page

Kvennakraftur

Kæri lesandi,  

Fyrir framan þig, hvort sem það sé á síma- eða tölvuskjánum, hefur þú málgagn okkar. Kvennasögunemanda í Kvennaskólanum í Reykjavík. Fyrirmynd okkar að þessari útgáfu er málgagn Rauðsokka, Forvitin Rauð. Þar skrifuðu þær um málefni líðandi stundar og gagnrýndu samfélagið og þjóðfélagsgerðina. Við unnum hana líka eins og Rauðsokkur unnu á sínum tíma. Þau notuðust við lifandi form, semsagt unnu þau í starfshópum, þar gat fólk ýmist flakkað milli hópa þegar það hafði lokið við sitt verkefni hverju sinni, þá var enginn leiðtogi, allir jafnir. Við þessa útgáfu unnum við eins og Rauðsokkur. Enginn leiðtogi, enginn ritstjóri, margir starfshópar. Þetta skilaði okkur miklum árangri á stuttum tíma.   Rauðsokkahreyfingin var hreyfing sem vildi opna umræðuna um jafnrétti, augljóst og dulið kynjamisrétti og kúgun. Hreyfingin var formlega stofnuð árið 1970. Þær börðust gegn duldu og augljósu kynjamisrétti og auknu jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Rauðsokkur börðust fyrir rétti kvenna í hinum ýmsu myndum sem og gegn misrétti sem þær upplifðu sem margir tóku hreinlega ekki eftir. Málefni sem þær tækluðu m.a. voru kúgun sem átti sér rætur í þjóðfélagsgerð og fjölskylduhefðum, mál tengd barneignum, getnaðarvörnum og fóstureyðingum, barnaheimilum og barnauppeldi, heimahúsmæður og mat á heimilisstörfum (fyrirvinna), kynjaskiptur vinnumarkaður og síðast en ekki síst fegurðarsamkeppnir og notkun kvenna sem markaðsvara.   Tilgangurinn okkar með þessari útgáfu er að sýna fram á að það sem Rauðsokkur börðust fyrir árið 1970 á við enn þann dag í dag. Jafnrétti hefur svo sannarlega ekki verið náð og því má ekki hætta jafnréttisbaráttunni! Eftir margra áratuga baráttu fyrir kvenfrelsi og kynjajafnrétti ríkir enn þá kvenfyrirlitning í samfélaginu, konur fá borguð lægri laun fyrir sömu vinnu, verðleikar kvenna eru metnir út frá því hvernig þær líta út, konur skipa ekki stjórnunarstöður í samanburði við karla og vinnumarkaðurinn er klofinn út frá kynjum.   Auðvitað hefur margt áunnist frá tímum Rauðsokka. Barátta kvenna, karla og allra þeirra femínista sem tekið hafa þátt í kvenréttindabaráttunni gegnum tíðina hefur skilað okkur augljósum réttindum sem hægt er að sjá á blaði, aukinni þátttöku sem hægt er að sjá í tölfræði og óséðum réttindum sem skilgreind verða einungis út frá upplifun hvers og eins.   Á hverjum degi opnast á nýjar umræður sem þarf að taka, baráttur sem þarf að herja og áskoranir sem þarf að mæta. Það þarf einhver að vera tilbúinn til að takast á við þær. Við erum það að minnsta kosti. Kæri lesandi, ert þú það ekki líka? Til að vitna í leiðara Forvitinnar Rauðar frá 1980: „En það næst auðvitað enginn árangur ef þú situr heima með hendur í skauti í stað þess að kreppa hnefa, reka upp öskur og strengja þess heit að láta ekki deigan siga fyrr en jafnrétti er náð.”

bottom of page