top of page

Um tækifæri og Twitter

Þegar ég var yngri þá ríkti ótrúlegur ótti hjá mér yfir þeirri hugmynd að verða fyrir hrelliklámi. Að einhvern góðan veðurdag, hvort sem mér líki það betur eða verr, endi brjóstin á mér á netinu fyrir allan heiminn til að sjá. Ég vandaði hvert orð sem ég lét frá mér af ótta við að þeir sem ég talaði við áframsendu það sem ég sagði. Ég óttaðist að það væri tekið screenshot af myndum af mér og þær færu í dreifingu. Ég óttaðist líka að brjóta óskráðar reglur samfélagsmiðlana, um hvað sé kúl, fyndið og samþykkt. Staðreyndin er nefnilega sú að samfélagsmiðlum og dreifingu fylgja fylgifiskar sem geta verið skaðlegir og erfitt að kljást við. Nú er auðveldara en hefur nokkurn tíman verið að dreifa myndum, myndskeiðum, samtölum … sem er einmitt það sem er gert og það eru margir sem hafa lent mjög illa í því. Til að nefna dæmi hefur verið svolítið um að fólk verði fyrir hrelliklámi. Hrelliklám er það þegar einstaklingur verður fyrir því að oftast kynferðislegt- efni, mynd eða myndskeið er dreift án samþykkis. Þetta efni dreifist oft um netið eins og eldur í sinu og á það til að samvefjast ýmsum afkimum netsins. Þetta getur valdið einstaklingnum örðugleikum í framtíðinni, t.d. ef vinnuveitandi „googlar“ hann. Þetta er eitt sem tilkoma netsins hefur gert. Bæði er viss varanleiki í því sem kemur á netið og það dreifist um allt á engri stundu. Núna eru samfélagsmiðlar og netið líka svo veigamiklir þættir í daglegu lífi flest allra á Íslandi og því er nauðsynlegt að brýna á mikilvægi þess að virða persónufrelsi fólks innan rafrænaheimsins. En, rétt eins og hrelliklám þá gerir netvæðing það að verkum að t.d. Free The Nipple byltingin dreifðist um netið umsvifalaust. Eitt kvöld fékk ung stúlka nóg, ákvað að taka völdin í sínar hendur og byltingin fór af stað! Hún byrjaði á samfélagsmiðlinum Twitter og dreifðist um allt land á einu kvöldi og fréttir af frjálsum geirvörtum íslenskra kvenna komust í fjölmiðla lengra út í heim! Þetta hefði ekki verið hægt án krafts samfélagsmiðlanna. Eins og snjóbolti sem veltur af stað niður fjallshlíð, stækkar og stækkar og hleður utan á sig öllu lauslegu, ruddist Free The Nipple yfir samfélagsmiðlana og snerti við öllu og öllum. Ekki svo löngu seinna inná Beauty Tips Facebook hópnum spratt hin erfiða og löngu tímabæra bylting varðandi þöggunina sem ríkti yfir kynferðisofbeldi. Samfélagið er búið að vera með risastórt graftarkýli beint framan á nefinu og þarna var það tekið og sprengt. #Þöggun, #konurtala, #6dagsleikinn, „Ég er drusla“ filterinn á facebook og svo lengi mætti áfram halda – þetta átti sér allt stað á samfélagsmiðlunum. Núna er greiður og opinn vettvangur sem allir geta sameinast og tengst, til að koma sínum skoðunum á framfæri og þar með fá stuðning og styðja aðra líka. Vettvangur þar sem bókstaflega allir eru og þar sem auðvelt er að vekja athygli. Aftur að Free The Nipple byltingunni. Núna eru tugir, ef ekki hundruð geirvartna og brjósta á netinu sem voru sett þangað á forsendum eigandanna. Ég tel það ólíklegt að einstaklingarnir sem ákváðu að setja mynd af sér á netið muni sjá eftir því. Ég tel það líka ólíklegt að einhver muni geta notað þessar myndir gegn eigendunum á einhvern hátt. Það er líka því ég trúi á að við sem samfélag höfum tekið við kröfunni um frjálsar geirvörtur, líkamsfrelsi og virðingu. Auðvitað tala ég bara fyrir mig, en ég veit að ég er ekki ein. Það er fegurðin í samfélagsmiðlum og í rauninni eitt af því mikilvægasta í þessu öllu – við styrkjum hvort annað - við erum ekki ein! Við erum saman í þessari baráttu því saman erum við sterkust! Ef við höldum þessu áfram þá mun þetta ekki hafa nein neikvæð áhrif á framtíðina. Rétt eins og fyrir 30 árum þá hefði þetta kannski ekki skipt það miklu máli, það var ekkert til að bylta. Nú höfum við stigið stórt skref og þá þarf bara að fylgja því eftir. Uppruni þessara byltinga er á samfélagsmiðlunum. Því að þrátt fyrir neikvæðar hliðar samfélagsmiðla getum við nýtt þennan kraft dreifingu í gagnstæðum tilgangi. Brotist undan þessari byrði og skömm, sýnt hvor öðru stuðning og tjáð skoðanir okkar. Netið og samfélagsmiðlar í dag hafa meira vald en ég held að margir átti sig á. Þess vegna skiptir svo miklu máli að sjá að í netinu felast líka dásamleg tækifæri - til góðs og ills! Það er okkar að velja hvora áttina við viljum fara. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu, þetta fer eftir nákvæmlega sömu leiðum. Með vitundarvakningu, fræðslu og umræðu um allar hliðar netsins, með áframhaldandi baráttu, opnari umræðu og aukinni samstöðu er fátt sem skyggir á unna sigra. Valið er okkar og tækifærið er í okkar höndum, bókstaflega.


Featured Posts
Check back soon
Once posts are published, you’ll see them here.
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page